Hvað er ARFID?

ARFID er skammstöfun fyrir Avoidant Restrictive Feeding Intake Disorder sem hefur verið þýdd sem sértæk átröskun á íslensku. Líkt og aðrar átraskanir, t.d. anorexia og búlemia, er ARFID flokkað sem geðsjúkdómur í flokkunarkerfi sjúkdóma (DSM-V) þar sem það hefur meiri áhrif á daglegt líf og heilsu einstaklings en fæðusérviska eða fæðuinntökuvandi. ARFID hefur þó ekkert að gera með útlitsdýrkun eða áhyggjum af því að þyngjast líkt og aðrar átraskanir. ARFID er fremur ný sjúkdómsgreining en henni var bætt inn í flokkunarkerfið árið 2013.

Einkenni ARFID skarast mörg hver við einkenni fæðuinntökuvanda og því mikilvægt að gera greinarmun þar á milli. Sameiginleg einkenni geta m.a. verið hæg þyngdaraukning, næringaskortur og skynúrvinnsla en skilgreining á fæðuinntökuvanda er þegar fæðuinntaka um munn er ekki aldurssvarandi vegna læknisfræðilegra, næringafræðilegra, sálfélagslegra og / eða færnimiðaðra orsaka. Einstaklingar með ARFID eiga ekki í vandræðum með að meðhöndla matinn í munni en það getur reynst einstaklingum með fæðuinntökuvanda erfitt, sbr. skert hreyfifærni á tungu vegna stuttra og stífra tungubanda.

Rannsóknir benda til að allt að 24-40% barna með eðlilegan þroska eigi í erfiðleikum með að borða allan almennan mat og allt að 80% barna með undirliggjandi sjúkdómsgreiningar geta átt í sömu erfiðleikum. Fæðuinntökuvandi kemur yfirleitt í ljós snemma á lífsleiðinni og er greindur af barnalækni eða talmeinafræðinum en ARFID er greint seinna og eru það helst börn og unglingar sem fá þá greiningu og í einstaka tilfellum fullorðnir einstaklingar líka.

Það sem sker einstakling með ARFID frá þeim sem eru með fæðuinntökuvanda er að hann forðast ákveðnar matartegundir, jafnvel heila fæðuflokka, eins og ávexti og grænmeti. Einstaklingar með ARFID sýna mat því lítinn áhuga og eru mjög fáar matartegundir sem þeir telja og velja sem ,,öruggan” mat. Öruggi maturinn er oftast mjög einsleitur, helst eitthvað úr pakka þar sem allt hefur sama útlit og sömu áferð. Einstaklingar með ARFID forðast að borða eða vera nálægt mat sem lyktar og hefur að þeirra mati skrítna áferð eða útlit. Miðað er við 20 eða færri fæðutegundir, sem teljast öruggar fæðutegundir hjá einstaklingi með ARFID og oft er hann mjög næmur á lykt eða bragð, jafnvel þannig að hann kúgast eða kastar upp auðveldlega.

Einstaklingur með fæðuinntökuvanda getur verið í kringum mat, jafnvel þann sem hann borðar ekki á meðan einstaklingur með ARFID getur það ekki oft vegna hræðslu og kvíða gagnvart matnum og þannig að það hefur áhrif á hans daglega líf.

Gjarnan hefur verið talað um ARFID sem nýjungarfælni (e. neo-phobia) í tengslum við mat en sálfræðingurinn Felix Economakis, einn helsti sérfræðingur Bretlands í ARFID, telur ARFID vera raunverulega fælni tengda mat líkt og við dýr, hluti, hæð o.s.frv. og meðhöndlar hann átröskunina sem slíka.

ARFID getur verið fylgifiskur einhverfu, ADHD, þráhyggju og kvíða og getur þróast út frá mjög slæmri upplifun tengdri mat, t.d. ef matur hefur staðið illa í einstaklingi, ef einstaklingur tengir uppköst við mat og ef einstaklingur upplifir heiftarlega magaverki eða hægðatregðu í kjölfar ákveðins matar.

Hvað er til ráða?

Mælt er með því að byrja að gefa börnum fasta fæðu um sex mánaða aldur og mikilvægt að hafa í huga að fæðuinntaka er þroskaferill líkt og hreyfing, máltaka, o.s.frv.

Strax í upphafi viljum við kynna sem fjölbreyttastan mat fyrir barninu og hafa í huga að það sem verið er að bjóða í fyrsta skiptið er barnið hugsanlega að sjá í fyrsta skipti og því vert að fylgjast með viðbrögðum þess. Viðbrögðin verða að öllum líkindum önnur eftir því sem barnið fær matinn oftar. Það er eðlilegt að börn verði vandlát á mat á ákveðnum aldri og fari þá allt í einu að fúlsa við mat sem þau hafa hingað til borðað vel eða verða óánægð ef brauðið er ekki skorið rétt o.s.frv. Á vef landlæknis er talað um fæðusérvisku, sem getur talist eðlileg frá ca. 18 mánaða til sex ára aldurs.

Mikilvægt er að staðfesta tilfinningar einstaklings varðandi mat og í kringum mat en halda þó áfram að bjóða þann mat sem hann fúlsar við eða forðast að borða, vitandi það að hann mun ekki snerta á matnum. Það að maturinn, sem einstaklingurinn ,,hræðist”, er í boði, vinnur á hræðslunni til lengri tíma. Einnig er mikilvægt að hafa mat í boði sem vitað er að barnið borðar af því að það er ,,öruggi” maturinn.

Hvort sem barn er með fæðusérvisku, fæðuinntökuvanda eða ARFID er mikilvægt að aðstandendur og umönnunaraðilar séu meðvitaðir um að varast að pressa á barnið að borða mat, sem það hugsanlega hræðist. Einnig þurfa sömu aðilar að passa hvernig talað er um mat (vondur, óhollur, skrítinn, þurr o.sfrv.), sérstaklega þegar ekki er vitað hvaða matur er öruggi matur barnsins.

Reglulegir matmálstímar með fjölskyldu er góð undirstaða fyrir jákvætt samband við mat, þar sem foreldrar eða eldri systkin eru fyrirmyndir. Undirbúningur máltíðar geta verið góðar samverustundir þar sem skapast tækifæri til að snerta, finna lykt, smakka og tala um mat. Einnig svo það sé ítrekað, þá skiptir máli að bjóða mat aftur og aftur og aftur.

Meðhöndlun á ARFID er langhlaup og er teymisvinna mismunandi fagaðila sbr. læknis og næringafræðings hvað varðar þyngdaraukningu og næringagildi; sálfræðings hvað varðar sálfræðilegar meðferðir og talmeinafræðings eða iðjuþjálfa, sem sjá m.a. um ráðgjöf til foreldra og matar- og skynúrvinnsluþjálfun.

Ef matartímar eru kvíðavaldandi fyrir fjölskyldumeðlimi og ofangreind einkenni eru til staðar er velkomið að hafa samband upp á aðstoð með viðeigandi meðferðarúrræði.