FróðleiksMolar

Rótina að mörgum ,,kvillum” er að finna í munninum. Það er nauðsynlegt að skoða upp í munn ungabarna ef brjóstagjöf gengur illa; ef barn sefur illa og það gengur illa að borða, ef bit er skakkt eða tennur skakkar. Hingað inn mun ég setja inn ýmsa fróðleiksmola, sem tengjast þessu á einn eða annan  hátt.  

baby, boy, child

Tengsl fæðuinntöku og hreyfiþroska

Fæðuinntaka er þroskaferill rétt eins og annar þroski, sbr. málþroski, hreyfiþroski, félagsþroski o.s.frv. Þessi þroskamerki fylgjast oft að en geta einnig farið fram úr eða dregist aftur úr öðrum.

Fæðuinntökuþroski fylgir oftar en ekki hreyfiþroskanum, þar sem barn verður að vera búið að ná ákveðinni færni í hreyfingu / styrk til að geta meðhöndlað ákveðna áferð fæðunnar.

Fyrstu fimm til sex mánuðina liggur barnið í fangi og drekkur úr brjósti eða pela en upp frá því er farið að huga að því að gefa barninu fasta fæðu. Föst fæða er í raun önnur fæða en brjósta-/pelamjólk, sem hefur mismunandi áferðarform, þéttleika, o.þ.h.

Barn er tilbúið til að borða fasta fæðu ef það getur m.a. setið upprétt með stuðningi og getur haldið haus. Á þessum upphafstíma föstu fæðunnar þarf hugsanlega enn aðeins að styðja við búk barnsins þegar það situr í matarstól, t.d. með handklæði, en alltaf þarf að vera stuðningur undir fótum.

Fyrsta fæðan er oftast nær þunnir grautar, sem barnið fær er úr skeið (hefðbundið) eða stórir bitar af allri fæðu, sem barnið heldur á sjálft (barnið borðar sjálft, e. baby led weaning).

Frá sjö til níu mánaða aldurs fær barnið aukinn styrk í líkamann og getur farið að beita honum meira, m.a.  til að skríða. Með auknum styrk getur barnið setið upprétt án stuðnings og fæðan breytist, hún verður aðeins meiri áskorun fyrir barnið. Barnið fær nú þykkari grauta og stappaðan mat. Best er að bjóða barninu heimatilbúið stapp, þar sem það verður aldrei eins, annað en það sem keypt er.

Frá 10-12 mánaða aldri, um það leiti sem barnið byrjar að taka fyrstu skrefin, er óhætt að fara að gefa því mjúka, litla bita og almennan mýkri mat, sömuleiðis í litlum bitum. Þarna er kominn enn meiri styrkur í líkamann, það ræðst betur við hann og hreyfingar verða markvissari og með tilgang, t.a.m. hönd að munni hefur verið æfing í að týna upp í sig litla bita eða hringi, eins og Cheerios.

Upp úr 12 mánaða aldri eða þegar barnið er farið að ganga óstutt, þá er það tilbúið fyrir allan almennan mat, mismunandi áferðir og mismunandi en viðeigandi bitastærðir.

Gott er að hafa í huga að fram að 12 mánaða aldri er mjólk ennþá uppistaðan í fæðu barnsins en öll fasta fæðan er til færniþjálfunar á skyni (bragð, lykt, áferð, útlit, hitastig) og hreyfingu handa að munni og hreyfingu talfæra. Ég mæli með að allur almennur matur sé kynntur fyrir barninu á þessum tíma, aðlagaður eftir aldri og færni þess hverju sinni.

Ef áhyggjur eru af þroska barns, er mikilvægt að ráðfæra sig við hjúkrunarfræðinga í ungbarnavernd, sem geta þá leiðbeint með réttar meðferðarleiðir.

Ef áhyggjur eru sérstaklega af fæðuinntöku barnsins, er velkomið að hafa samband hér í gegnum síðuna.

Ramos CC, Maximino P, Machado RHV, Bozzini AB, Ribeiro LW, Fisberg M. Delayed Development of Feeding Skills in Children with Feeding Difficulties-Cross-sectional Study in a Brazilian Reference Center. Front Pediatr. 2017 Oct 31;5:229. doi: 10.3389/fped.2017.00229. PMID: 29164081; PMCID: PMC5671654.

Greinar

Ég hef skrifað þrjár greinar sem hafa m.a. birst á heimasíðu félags talmeinafræðinga á Íslandi, www.talmein.is, og í Talfræðingnum, tímariti talmeinafræðinga. Ég hef hug á að setja þær hér inn til fróðleiks og byrja á þeirri, sem ég skrifaði fyrst í nóvember 2018.

newborn, children, baby

Börn með ADHD oftar með háan og hvelfdan góm og/eða krossbit

Rannsókn frá árinu 2018 sýndi fram á það að tengsl væru á milli svefnleysis og þess að vera með háan og hvelfdan góm. Þau börn, sem tóku þátt í rannsókninni og voru greind með athyglisbrest og ofvirkni (ADHD), sváfu færri tíma á nóttunni og hrotur heyrðust frekar frá þeim en börnum, sem ekki voru greind með ADHD. Það er þekkt að einkenni ADHD og langvarandi þreytu skarast og þess vegna nauðsynlegt að senda barn, sem er í greiningarferli fyrir ADHD í svefnrannsókn til að skoða undirliggjandi ástæður. Eins er nauðsynlegt að skoða munnholið, góminn og bit barnsins.